14.3.2009 | 00:08
Hver, hvers vegna og hvað?
Ég heiti Hólmar Örn Finnsson og hef ákveðið að bjóða mig fram í 2.-4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi. Ég er 29 ára gamall og bý á Akureyri. Ég er í sambúð með Valgerði Húnbogadóttur og eigum við einn son.
Ég lauk námi í Viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2005 og stunda nú meistaranám í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri. Ég starfaði hjá skattstjóra norðurlandsumdæmi eystra eftir nám á Bifröst og síðar hjá Fjölgreiðslumiðlun þar sem ég starfa núna samhliða námi. .
Ég sækist eftir því að taka sæti á lista Framsóknarmanna fyrir næstu alþingiskosningar. Það eru ærin verkefni framundan og miklar breytingar í farvatninu á högum Íslendinga. Fólk hefur kallað eftir breytingum og jafnvel byltingu og þá helst á sviði stjórnmálanna. Til þess að ná því fram er endurnýjun innan flokkanna nauðsynleg.
Ég vil meiri fagmennsku í starfi Alþingis og innan stjórnsýslunnar. Flokkapólitíkin hefur oft orðið fagmennsku yfirsterkari til dæmis við ráðningu í störf og í almennum umræðum á þinginu. Fólkið í landinu er orðið langþreytt á málþófi og pólitískum hnútuköstum innan veggja Alþingis og í fjölmiðlum - núna þarf aðgerðir. Á tímum sem þessum er auðvelt að taka ákvarðanir eða gera breytingar og skýla sér á bak við ,,ástandið". Nauðsynlegt er að ekki sé anað að neinu og grundvallarreglur samfélagsins séu virtar. Í nýlegum neyðarlögum var, að mati héraðsdóms, til að mynda kveðið á um sviptingu stjórnarskrárvarinna réttinda um að fá úrlausn sinna mála fyrir dómstóli. Slíkt má ekki endurtaka sig.
Ég vil aukið gagnsæi í störfum hins opinbera og fyrirtækja á vegum þess. Á næstu mánuðum verða teknar stórar ákvarðanir innan stjórnsýslu, á Alþingi og t.d. í bönkunum sem geta haft gríðarleg áhrif á líf fólksins í landinu. Við eigum heimtingu á gagnsæi við ákvarðantöku og auðvelt verði að afla sér upplýsinga um undirbúning ákvarðana og framkvæmd. Almenningur treystir stjórnvöldum ekki um þessar mundir og gagnsæi er því nauðsynlegur þáttur í því að tryggja og sýna fram á jafnrétti borgaranna.
Evrópumál hafa mikið verið rædd og sumir tefla aðild að Evrópusambandinu fram sem töfralausn á öllum okkar vandamálum. Ég er hlynntur því að farið sé í aðildarviðræður, en tel þó að önnur úrlausnarefni hér innanlands sé brýnni og meira áríðandi á þessari stundu. Einnig er það svo að innan ESB er mikil ólga og blikur á lofti. Ég tel heillavænlegast að við leysum okkar mest aðkallandi vanda hér heimafyrir og leyfum ESB að leysa úr sínum, áður en teknar eru ákvarðanir um aðild.
Gjaldmiðlamál hafa einnig verið áberandi í umræðunni, sem eðlilegt er. Ólíklegt er að krónan henti sem okkar framtíðargjaldmiðill. Hins vegar höfum við sennilega tekið út helstu gallana við hana í bili og það ansi hressilega. Nú gætum við hins vegar nýtt okkur hið lága gengi og reynt að laða hingað erlent fjármagn, t.d. til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Fjárfestar um allan heim leita nú logandi ljósi að álitlegum fjárfestingartækifærum þar sem kreppan er jú farin að segja til sína víða. Hér á Íslandi er hátt menntastig, miklar auðlindir og fjárfestarnir fá mikið fyrir dalinn sinn, evruna sína eða pundið.
Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að skipað verði stjórnlagaþing. Ég er hlynntur þeirri tillögu og tel að tími sé til komin að við fáum íslenska stjórnarskrá, samda af Íslendingum fyrir íslenskt samfélag. Í nýrri stjórnarskrá er mikilvægt að efla Alþingi. Í því sambandi mætti t.d. kveða á um að ráðherrar hafi ekki sæti á Alþingi. Þannig mætti skerpa skilin milli Alþingis og ríkisstjórnar. Þrískipting ríkisvaldsins eins og hún birtist manni í dag er ekki mjög skýr. 97% af frumvörpum sem afgreidd voru á síðasta þingi voru stjórnarfrumvörp, flest samin í ráðuneytunum. Dómarar eru skipaðir ef ráðherrum og því má segja að ráðherrar starfi nánast þvert á þrískiptinguna. Þessu þarf að breyta og draga úr ráðherraræðinu.
Ég hvet ykkur til þess að skoða kynningarbæklinginn sem má finna í samnefndri bloggfærslu og vonast eftir stuðningi ykkar í prófjkörinu.
Hefjum nýja sókn!
Gunnar Bragi sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.