Aðgerðaleysi er dýrt!

Jóhanna og Steingrímur vita þetta eflaust mun betur en Nouriel Roubini, sem telur að þessi leið geti bjargað því sem bjargað verður. Þessi leið er í raun eina leiðin sem fram hefur komið. Margt hefur verið rætt eins og t.d. að lengja í lánum og frysta afborganir. Þær leiðir hafa aðrar þjóðir reynt og ekki komið vel út úr. Það er skiljanlegt að mönnum svíði að þeir sem offjárfestu og þeir sem þurfa ekki á hjálpa að halda, fái einnig niðurfelling. Staðreyndin er hins vegar sú að því fyrr sem eitthvað er gert því betra. Þessi leið er gagnsæ, skilvirk og tiltölulega einföld í framkvæmd. Ef Jóhanna og Steingrímur ætla að leggjast yfir hvert og eitt tilvik fyrir sig og greina hvað þarf að gera, þá er ég ansi hræddur um að hér verði orðið kerfishrun áður en nokkuð verður að gert. Kostnaðurinn af þessari framkvæmd verður fyrst og fremst af afskriftinni sem verður þegar kröfur verða keyptar frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Í því sambandi hefur verið talað um 50% afskriftir. Erlendir kröfuhafar munu sennilega sætta sig við það, þar sem íslensk skuldabréf þykja nánast verðlaus alþjóðamarkaði.

Þegar búið er að fella niður 20% má fara að skoða frekar aðgerðir til hjálpar þeim sem enn verða illa staddir. Einnig má útfæra þessa hugmynd á einhvern hátt með því tildæmis að setja hámörk á niðurfellingu eða annað slíkt.

 Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn leggji pólitíkina aðeins til hliðar og fari að grípa til aðgerða. Í þessu árferði er vítavert ábyrgðaleysi að hafna hugmyndum án nokkurrar yfirlegu, bara vegna þess hvar þær eru upprunnar.

Ég minni á færslu mína hér á blogginu um 20% niðurfellinguna. Hana má nálgast í valmyndinni hér til hliðar, undir Nýjustu færslur.


mbl.is Húsráð Tryggva Þórs þykja vond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver, hvers vegna og hvað?

Ég heiti Hólmar Örn Finnsson og hef ákveðið að bjóða mig fram í 2.-4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi. Ég er 29 ára gamall og bý á Akureyri. Ég er í sambúð með Valgerði Húnbogadóttur og eigum við einn son.

Ég lauk námi í Viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2005 og stunda nú meistaranám í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri. Ég starfaði hjá skattstjóra norðurlandsumdæmi eystra eftir nám á Bifröst og síðar hjá Fjölgreiðslumiðlun þar sem ég starfa núna samhliða námi. .

Ég sækist eftir því að taka sæti á lista Framsóknarmanna fyrir næstu alþingiskosningar. Það eru ærin verkefni framundan og miklar breytingar í farvatninu á högum Íslendinga. Fólk hefur kallað eftir breytingum og jafnvel byltingu og þá helst á sviði stjórnmálanna. Til þess að ná því fram er endurnýjun innan flokkanna nauðsynleg.

Ég vil meiri fagmennsku í starfi Alþingis og innan stjórnsýslunnar. Flokkapólitíkin hefur oft orðið fagmennsku yfirsterkari til dæmis við ráðningu í störf og í almennum umræðum á þinginu. Fólkið í landinu er orðið langþreytt á málþófi og pólitískum hnútuköstum innan veggja Alþingis og í fjölmiðlum - núna þarf aðgerðir. Á tímum sem þessum er auðvelt að taka ákvarðanir eða gera breytingar og skýla sér á bak við ,,ástandið". Nauðsynlegt er að ekki sé anað að neinu og grundvallarreglur samfélagsins séu virtar. Í nýlegum neyðarlögum var, að mati héraðsdóms, til að mynda kveðið á um sviptingu stjórnarskrárvarinna réttinda um að fá úrlausn sinna mála fyrir dómstóli. Slíkt má ekki endurtaka sig.

Ég vil aukið gagnsæi í störfum hins opinbera og fyrirtækja á vegum þess. Á næstu mánuðum verða teknar stórar ákvarðanir innan stjórnsýslu, á Alþingi og t.d. í bönkunum sem geta haft gríðarleg áhrif á líf fólksins í landinu. Við eigum heimtingu á gagnsæi við ákvarðantöku og auðvelt verði að afla sér upplýsinga um undirbúning ákvarðana og framkvæmd. Almenningur treystir stjórnvöldum ekki um þessar mundir og gagnsæi er því nauðsynlegur þáttur í því að tryggja og sýna fram á jafnrétti borgaranna.

Evrópumál hafa mikið verið rædd og sumir tefla aðild að Evrópusambandinu fram sem töfralausn á öllum okkar vandamálum. Ég er hlynntur því að farið sé í aðildarviðræður, en tel þó að önnur úrlausnarefni hér innanlands sé brýnni og meira áríðandi á þessari stundu. Einnig er það svo að innan ESB er mikil ólga og blikur á lofti. Ég tel heillavænlegast að við leysum okkar mest aðkallandi vanda hér heimafyrir og leyfum ESB að leysa úr sínum, áður en teknar eru ákvarðanir um aðild.

Gjaldmiðlamál hafa einnig verið áberandi í umræðunni, sem eðlilegt er. Ólíklegt er að krónan henti sem okkar framtíðargjaldmiðill. Hins vegar höfum við sennilega tekið út helstu gallana við hana í bili og það ansi hressilega. Nú gætum við hins vegar nýtt okkur hið lága gengi og reynt að laða hingað erlent fjármagn, t.d. til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Fjárfestar um allan heim leita nú logandi ljósi að álitlegum fjárfestingartækifærum þar sem kreppan er jú farin að segja til sína víða. Hér á Íslandi er hátt menntastig, miklar auðlindir og  fjárfestarnir fá mikið fyrir dalinn sinn, evruna sína eða pundið.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að skipað verði stjórnlagaþing. Ég er hlynntur þeirri tillögu og tel að tími sé til komin að við fáum íslenska stjórnarskrá, samda af Íslendingum fyrir íslenskt samfélag. Í nýrri stjórnarskrá er mikilvægt að efla Alþingi. Í því sambandi mætti t.d. kveða á um að ráðherrar hafi ekki sæti á Alþingi. Þannig mætti skerpa skilin milli Alþingis og ríkisstjórnar. Þrískipting ríkisvaldsins eins og hún birtist manni í dag er ekki mjög skýr. 97% af frumvörpum sem afgreidd voru á síðasta þingi voru stjórnarfrumvörp, flest samin í ráðuneytunum. Dómarar eru skipaðir ef ráðherrum og því má segja að ráðherrar starfi nánast þvert á þrískiptinguna.  Þessu þarf að breyta og draga úr ráðherraræðinu.

Ég hvet ykkur til þess að skoða kynningarbæklinginn sem má finna í samnefndri bloggfærslu og vonast eftir stuðningi ykkar í prófjkörinu.

Hefjum nýja sókn!


mbl.is Gunnar Bragi sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga Framsóknar um 20% niðurfellingu

Margt hefur verið rætt og ritað um tillögu Framóknarflokksins um flata 20% niðurfærslu íbúðalána. Flestir sem hafa tjáð sig um þær afskrifa hana í hvelli án þess að gera mikla grein fyrir göllum tillögunnar eða koma með betri leið til að leysa þann mikla vanda sem þjóðin er í. Tillagan er að sjáfsögðu ekki gagnrýni en þó væri betra að þeir sem telja hanameingallaða komi með betri útfærslu þessarar leiðar eða komi þá með aðra betri tillögu. Ljóst er að ef ekkert verður aðgert stöndum við frammi fyrir algeru kerfishruni. Ég ætla að fara aðeins yfir tillöguna og óska eftir málefnalegri umræðu um hana í athugasemdakerfinu. Væri gott að fá fram þá galla sem menn sjá á tillögunni, leiðir til að útfæra hana betur, nú eða nýja og betri tillögu. Það eru allir að bíða eftir töfralausninni, þetta er engin töfralausn en tilraun til að leysa hluta þess vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Tillagan gengur í mjög einfölduðu máli út á það að íbúðalán heimila verði færð niður um 20% um leið og skuldirnar eru færðar til Íbúðalánasjóðs. Margar tölur hafa komið fram um kostnað sem án frekari útskýringa er mjög hár. Það sem vill gleymast er það að hér er um að ræða niðurfærslu á skuldum sem svarar til þess að verðtrygging sé færð aftur um því sem næst 14 mánuði. Einnig er það svo að nýju bankarnir koma til með að kaupa þessi lán af gömlu bönkunum með um 50% afslætti. Íbúðalánasjóður tæki lánin yfir á sama verði. Með því að færa lánin svo niður um 20%, er Íbúðalánasjóður því að fá 80% af? lánunum, eins og þau standa þegar þau eru flutt yfir, á verði 50%.

Tökum einfalt dæmi:

Húsnæðislán stendur í 20.000.000 þegar á að færa það frá gamla bankanum til nýja bankans. Nýji bankinn borgar hins vegar aðeins 10.000.000 fyrir lánið. Þegar svo lánið er flutt í Íbúðalánasjóð, greiðir hann 10.000.000, afskrifar 20% svo eftir standa 16.000.000. Íbúðalánasjóður fær þannig 16.000.000 kr. lán á 10.000.000.  Þannig má ÍLS ennþá við einhverjum afföllum þrátt fyrir að 20% niðurfellingu.

Eins og áður segir er um að ræða flata 20% niðurfellingu. Hún mun leiða til þess að sumir munu geta staðið í skilum af sínum lánum sem hefðu annars ekki geta gert það. Aðrir munu fá þessa niðurfellingu og engu að síður ekki geta greitt af sínum lánum og fara í þrot. Enn aðrir hefðu hvort eð er getað greitt af sínum lánum, en eiga núna svigrúm til þess að hugsanlega auka sína neyslu eða leggja fé í fyrirtæki eða atvinnutækifæri. Það mun hjálpa til við að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

En hvað kostar þetta. Ef öll niðufellingin er reiknuð beint sem tap ríkissjóðs eða greiðslur úr ríkissjóði er um að ræða mjög háa upphæð, en það segir ekki alla söguna. Fyrir það fyrsta stendur til að afskrifa 50% af skuldum þegar lánin verða flutt frá gamla bankanum til þess nýja. Þetta gerir aþað að verkum að megnið af kostnaðinum lendir á erlendum kröfuhöfum sem hafa lánað gömlu bönkunum. Varðandi niðurfellingun frá hendi Íbúðalánasjóðs er vel hægt að réttlæta hana. Er ekki sanngjarnar að rukka lántakendur um 80% af upphaflegri upphæð í stað 100%, þegar skuldin er í raun keypt á 50% af upprunalegu verði? Einnig er ljóst að margir munu lenda í greiðsluerfiðleikum á næstunni og jafnvel hætta að greiða af lánum sínum og flytja úr húsunum. Þannig myndu bankarnir þurf að leysa til sín mikið af íbúðum og verðfall yrði á húsnæðismarkaði. Þannig má í raun draga frá heildarkostnaðinum öll þau lán sem verður hægt að greiða af vegna þessarar niðufellingar. Einnig má draga frá þá sem fá niðurfellingu en geta samt ekki greitt af lánunum. Þau lán hefðu hvort eð er verið glötuð og bankinn þurft að leysa til sín íbúðina. Þá standa eftir þeir sem hefðu alltaf getað greitt en fá samt niðurfellingu, þeim er ætlað að reyna að virka sem smurning á hjól atvinnulífsins og láta þau snúast hraðar, eins og var rekið hér að ofan.

Þetta eru vissulega nokkuð róttækar aðgerðir sem lagt er til að gripið verði til. En hvað er annað til ráða? Aðrir flokkar hafa ekki lagt fram neinar hugmyndir í þessa veru. Það góða við þessar tillögur er það að ef þeim yrði hrint í framkvæmd myndi fólk vita fyrr hvar það stendur. Óvissan sem núna ríkir virkar lamandi á alla og hægir á því að hægt verði að hefja uppbyggingu. Ef við gerum ekkert og horfum upp á fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu þá lendum við í svipaðri stöðu og Finnar þar sem fólk var í þeirri stöðu þegar uppsveiflan hófst á nýjan leik að vera með ónýtt lánstraust og jafnvel enn með svimandi háar skuldir á bakinu þar sem kröfum var viðhaldið. Ef við höldum áfram að rúlla boltanum á undan okkur með lengingu lána og frystingum á afborgunum, gætum við lent í sömu stöðu og Japanir gerðu eftir kreppuna þar 1990. Japanir festust þannig margir í húsnæði sem hafði fallið um allt að 80% í verði með gríðarlega löng lán á bakinu. Þar hefur varla mælst hagvöxtur í 20 ár.

Eins og áður sagði er þessi leið alls ekki gallalaus eða hafin yfir gagnrýni. Þess vegna væri gott að þeir sem hafa eitthvað út á hana að setja rökstyðji það vel, komi með nýjar tillögur eða tillögur af því hvernig má útfæra þessa lausn betur. Viðbrögð stjórnarflokkanna við tillögunum eru þeim til skammar.Þær voru slegnar útaf borðinu án nokkurrar yfirlegu. Mann grunar helst að það hafi verið gert til þess að reyna að breiða yfir eigin aðgerðar- og úrræðaleysi. Eina sem hugsað var um var að koma Davíð Oddsyni úr Seðlabankanum. Vissulega verðugt verkefni, en ekki gott að það sé það eina sem minnihlutastjórnin hafði á prjónunum. Það sýndi sig best á því að þingfundi var frestað þegar frumvarpið fékkst ekki afgreitt úr viðskiptanefnd. Eins og önnur umræðu- og úrlausnarefni hafi ekki verið ærin. Slíkur yfirgangur gagnvart Alþingi  af hálfu ríkisstjórnarinnar, hverrar meðilimir hafa oft sinnis býsnast yfir valdaleysi þingsins, er ólíðandi og eitthvað sem stjórnlagaþing þarf að taka á í sínum tillögum.


mbl.is Svigrúm til stýrivaxtalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynningarbréf

Hér er kynningarbréf sem var útbúið fyrir mig vegna prófkjörsins. Það er á prf-sniði.

Í kynningarbréfinu geri ég grein fyrir hvers vegna ég býð mig fram ásamt helstu málefnum sem á mér brenna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband